Fyrirlestur um vöktun þurrlendis á norðurhjara og hlutverk Rifs

Hrafnaþing er röð opinna fræðsluerinda á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands.

2. nóvember síðastliðinn fluttu Starri Heiðmarsson (sviðsstjóri grasafræði við Náttúrufræðistofnun Íslands og ritari stjórnar Rannsóknastöðvarinnar Rifs) og Jónína framkvæmdastjóri Rifs erindið „Vöktun þurrlendis á norðurhjara og uppbygging rannsóknastöðvarinnar Rifs á Melrakkasléttu“. Hlusta má á fyrirlesturinn í heild sinni hér.

Í fyrirlestrinum var sagt frá áætlunum um vöktun þurrlendis með sérstakri áherslu á Ísland, en grundvöllur íslenskrar vöktunar á norðurhjara styrktist umtalsvert þegar rannsóknastöðin Rif var sett á fót.

Yfirstandandi loftslagsbreytingar hafa og munu hafa mikil áhrif á norðurhjara. Sum áhrifin eru augljós eins og hopandi jöklar og minnkandi sífreri. Þekking okkar og vöktun á lífríki norðurhjara er hins vegar brotakennd og til að draga saman þekkingu og samræma vöktun á svæðinu hefur CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna – lífríkisvernd á norðurslóðum) komið á fót alþjóðlegu verkefni, CBMP (Circumpolar Biodiversity Monitoring Program – Vöktun lífríkis á norðurhjara).

Melrakkaslétta er það landsvæði Íslands sem hvað helst ber einkenni norðurheimskautssvæða (norðurslóða) og er norðurhluti hennar skilgreindur sem lágarktískur. Með aðstöðunni sem stöðin býður upp á eykst aðgengi að svæðinu og þar með möguleikarnir á framtíðarrannsóknum og vöktun á lífríki norðlægra vistkerfa á Íslandi. Þá er Rif aðili að INTERACT (International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Arctic) sem er öflugt samstarfsnet rannsóknastöðva á norðurslóðum. Rif hefur nú verið tilnefnd af samstarfinu sem ein þeirra stöðva þar sem byggja á upp CBMP vöktunaráætlunina.

Fyrirlestur á Hrafnaþingi, 2. nóvember 2016

Rannsóknastöðin Rif ætlar að taka þátt í Hrafnaþingi, röð fræðsluerinda sem að jafnaði eru á dagskrá aðra hverja viku yfir vetrarmánuðina. Þar kynna starfsmenn stofnunarinnar rannsóknir sínar og gestafyrirlesurum er boðið að flytja erindi.

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ, 3. hæð og er fyrirlesturinn á dagskrá miðvikudaginn 2. nóvember kl 15:15.

Fyrirlesturinn er tvíþættur;

  • Starri Heiðmarsson, sviðsstjóri grasafræði hjá Náttúrufræðistofnun, mun fjalla um mikilvægi vöktunar á lífríki norðurhjara og kynna CBMP-vöktunaráætlun CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna)
  • Jónína framkvæmdastjóri Rifs mun svo taka við og kynna starfsemi stöðvarinnar útfrá alþjóðlegu samhengi, framtíðarmöguleikum og hlutverki  í vöktun og rannsóknum á norðurhjara.

Hér má lesa ágrip fyrirlestrarins sem er opinn öllum svo um að gera að kíkja við.

Hlökkum til að sjá ykkur!

nilogo_isl_300

IPTRN-ráðstefnunni á Raufarhöfn lokið

IPTRN-ráðstefnunni sem haldin var á Raufarhöfn lauk formlega í gærkvöldi og héldu ráðstefnugestir áleiðis heim nú morgun – 50 rannsakendur á sviði ferðaþjónustu á heimskautaslóðum. Var ráðstefnan einstaklega vel heppnuð í alla staði, og yfirfull af gagnlegum upplýsingum og áhugaverðum hugmyndum.

Kærar þakkir til allra þeirra sem komu að þessu hér á svæðinu, ráðstefnugestir voru í skýjunum yfir mótttökunum, staðnum og þeirri jákvæðni og atorku sem þeir mættu í hvívetna. Það er næsta víst að margir þeirra munu leggja leið sína hingað aftur áður en langt um líður!

Ráðstefna um ferðamál á norðurslóðum

IPTRN-samtökin (International Polar Tourism Research Network) standa fyrir ráðstefnu um ferðamál á heimskautasvæðum sem haldin verður á Raufarhöfn nú í lok mánaðarins.

Aðalskipulag hér á Íslandi er í höndum Rannsóknamiðstöðvar ferðamála (RMF) og fengu þau okkur hjá Rannsóknastöðinni Rif til liðs við sig ásamt ferðaþjónustusamtökunum Norðurhjara og verkefnastjóra Raufarhafnar og framtíðarinnar.

Fjallað verður um mörg mikilvæg málefni á ráðstefnunni og sérstök áhersla lögð á að skoða möguleika á sviði ferðaþjónustu hér á Raufarhöfn og í nærsveitum. Hvetjum við því heimamenn sérstaklega til að kynna sér málið og kíkja á dagskrána, en hana má finna hér.

Slide1

Auglýsingin á PDF-formi

Örveruvistfræði Norðurslóða

Dagana 22. til 24. júní s.l. heimsótti okkur stór hópur í tengslum við námskeiðið Örveruvistfræði Norðurslóða sem haldið er af Háskólanum á Akureyri í samstarfi við Háskólann í Reading, Bretlandi.  Í ár komu jafnframt nemendur frá Háskólanum í Massachusetts, Dartmouth og Háskólanum í Medellín í Kólumbíu. Nemendahópurinn taldi í heildina 29 manns og var honum stýrt af 16 manna teymi kennara og starfsmanna.  Það var því ansi mikið um að vera á Raufarhöfn þessa daga en hópurinn hafði bækistöð annars vegar í Hreiðrinu og hins vegar í Grunnskólanum.

Námskeiðið samanstóð af vettvangsferð, rannsóknarstofuvinnu, fyrirlestrum og verkefnavinnu tengdri náttúrulegri örverubíótu Norðurslóða. Í ár voru sérstaklega teknar fyrir örveruvistgerðir á Melrakkasléttu, í Öxarfirði og Jökulsárgljúfri ásamt fleiri stöðum.  Meðal örveruvistkerfa sem könnuð voru beint eða óbeint má nefna ýmis jaðarvistkerfi á borð við jökulís, hafís, súra hveri og basíska. Einnig var hugað að örverulífríki í jarðvegi móa og mela og í árvatni.

Markmið námskeiðsins eru þau helst að veita nemendum reynslu af sýnatöku- og rannsóknaraðferðum á vettvangi sem og þjálfun í algengum örverufræðilegum og sameindalíffræðilegum aðferðum. Þá á námskeiðið að veita innsýn í helstu málefni sem lúta að örveruvistfræði Norðurslóða, þar á meðal áhrifum hnattrænnar hlýnunar og bráðnunar jökla og fellur það því vel að markmiðum og áherslum okkar hér á Rifi.

Hér má lesa pistil um námskeiðið í ár eftir Odd Vilhelmsson, forsvarsmann námskeiðsins og prófessor við auðlindadeild Háskólans á Akureyri.

Hér má einnig sjá fleiri myndir frá námskeiðinu.

Við þökkum hópnum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá þau sem flest aftur í framtíðinni.

 

Himbrimarannsóknir á Sléttu

Dagana 28. maí til 1. júní dvaldist hér hjá okkur ásamt fríðu föruneyti Pétur Halldórsson, meistaranemi í líffræði við Háskóla Íslands. Tilgangur ferðarinnar var að fanga norðlenska himbrima (Gavia immer), en Ísland er eina landið í Evrópu þar sem þessi mikilfenglegi vatnafugl verpir að staðaldri.

Hópurinn var svo heppinn að ná einum fugli. Var hann merktur og mældur auk þess sem blóð- og fjaðrasýnum var safnað. Þá hafa verið festir dægurritar (e. geolocator) á himbrima í verkefninu, en slík tæki mæla birtutíma og gefa þannig upp staðsetningu. Fuglunum þarf að ná aftur til að hægt sé að nálgast upplýsingarnar sem tækið geymir svo við bíðum spennt eftir að fá frekari fréttir af ferðum íslenskra himbrima.

Einnig mætti á svæðið þriggja manna tökulið undir stjórn Jóns Arnar Guðbjartssonar, sviðsstjóra markaðs- og samskiptasviðs HÍ og umsjónarmanns þáttanna Fjársjóður framtíðar. Fylgdu þeir rannsóknahópnum eftir einn dag og náðu frábærum myndum og myndskeiðum af þeim fanga og meðhöndla himbrima. Sjá má nokkrar myndir af þessu ævintýri hér að neðan.

Verkefnið er styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar og naut hópurinn aðstoðar Guðmundar Arnar Benediktssonar, fuglaáhugamanns á Kópaskeri, við val á rannsóknarsvæðum.

Viðtal við Jónínu verkefnastjóra

Sjónvarpsstöðin N4 tók á dögunum viðtal við verkefnastjóra Rifs sem birtist í föstudagsþætti stöðvarinnar þann 27. maí.  Ýmislegt fróðlegt kemur fram í viðtalinu en spjallað var m.a. um starfsemi Rifs, hugmyndina á bak við verkefnið, dagskránna framundan og framtíðarhorfur. Viðtalið má finna hér.

Slide1

Bætist enn í verkefnaflóruna

Hjá okkur á Rifi hefur dvalið síðan á föstudaginn hún Farina Sooth, doktorsnemi við Albert-Ludwigs háskólann í Freiburg, Þýskalandi. Mun hún dvelja í stöðinni til 1. júní n.k. í tengslum við rannsóknir sínar. Snúa þær að því að kanna hvaða áhrif rjúpnaveiði, og sú truflun sem af slíkri umferð og athöfnum manna verður, hefur á hegðunarmynstur og lífsskilyrði rjúpunnar (Lagopus muta).

Farina hefur ferðast um Ísland síðan 4. apríl s.l. við öflun gagna og ber hún saman mismunandi svæði þar sem ólíkt veiðiálag ríkir. Þau svæði sem hún tekur fyrir í rannsókn sinni eru Reykjavík og nágrenni, Skaftafell, Ásbyrgi og nágrenni og svo Melrakkaslétta og Þistilfjörður.

Við bjóðum Farinu hjartanlega velkomna á svæðið og óskum henni góðs gengis með þetta spennandi verkefni.

Foto am Tronkberg See