Vistgerðarkortlagning á Melrakkasléttu – auglýst eftir námsmönnum í sumarstarf

Náttúrufræðistofnun Íslands og Rannsóknastöðin Rif eru að leita að tveimur námsmönnum til að sinna vistgerðarkortlagningu á vettvangi á Melrakkasléttu í sumar. Hægt er að sækja um starfið hér á vef Vinnumálastofnunar.

20180727_geldingahnappur og reki
Geldingahnappur blómstrar við rekann á Sléttu.

Starfið felst í því að fara um Melrakkasléttu og greina ólíkar vistgerðir á landi, ferskvatni og í fjörum með hliðsjón af vistgerðarkorti sem NÍ hefur áður unnið, að mestu með fjarkönnun. Vistgerðarlyklar NÍ verða notaðir við greininguna. Einnig er ætlunin að skrá algengar og auðþekktar tegundir plantna á svæðinu.

Verkið verður unnið í góðri samvinnu við starfsmenn Rifs og undir leiðsögn sérfræðinga á Náttúrufræðistofnun.

Við hvetjum öll sem hafa áhuga á Melrakkasléttu, útivist og náttúruvísindum til að sækja um og við hjá Rifi hlökkum til að bæta við hópinn okkar í sumar. Hafa má samband við Hrönn, forstöðumann Rifs, í síma 856 9500 eftir frekari upplýsingum.