Um Rannsóknastöðina Rif

Rannsóknastöðin Rif var stofnuð þann 23. maí 2014 af Byggðastofnun, sveitarfélaginu Norðurþingi og Náttúrustofu Norðausturlands. Við stofnun var rannsóknastöðinni mörkuð eftirfarandi framtíðarsýn:

Rannsóknastöð á Raufarhöfn verði helsti vettvangur rannsókna á vistkerfi norðurslóða á Íslandi. Stöðin verði alþjóðlegur miðpunktur rannsókna sem tengja saman málefni norðurslóða og náttúrufars á norðausturhorni Íslands, einkum Melrakkasléttu. Með þessu verði rannsóknastöðin virkur þátttakandi í allri umræðu um vistkerfi norðurslóða og áhrif loftslagsbreytinga.

Á þeim fimm árum sem nú eru liðin síðan stöðin var stofnuð hafa starfsmenn og stjórn Rifs unnið ötullega að þessu markmiði. Innviðir stöðvarinnar hafa styrkst og vaxið til muna á þessum árum og vöktun á Melrakkasléttu stóreflst. Á næstu árum er útlit fyrir að Rannsóknastöðin Rif festi sig í sessi sem einn helsti vettvangur rannsókna og vöktunar á vistkerfi norðurslóða á Íslandi.

Tilgangur og markmið

Rannsóknastöðin Rif hefur þríþætt hlutverk og markmið:

  • Að efla og auka náttúrurannsóknir á Melrakkasléttu, m.a. með hliðsjón af skuldbindingum Íslands í norðurslóðasamstarfi.
  • Að safna saman og miðla upplýsingum um náttúrufar á svæðinu til almennings, stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins.
  • Að styðja nærsamfélagið með því að taka þátt í samfélaginu, m.a. með fræðslu auk stuðnings við náttúrutengda ferðamennsku.

Ýtarlegri upplýsingar um Rannsóknastöðina Rif og rannsóknasvæði hennar má nálgast á undirsíðum hér hægra megin á síðunni.