Um Rif

Í ljósi hraðrar fólksfækkunar á Raufarhöfn ákvað Byggðastofnun að prófa nýjar leiðir til að styrkja byggð á Raufarhöfn í samstarfi við sveitarfélagið NorðurþingAtvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Háskólann á Akureyri og heimamenn. Hrundið var af stað sérstöku átaksverkefni og var kallað eftir hugmyndum um eflingu samfélagsins, m.a. á íbúafundum. Náttúrustofa Norðausturlands, sem rekin er m.a. af sveitarfélaginu Norðurþingi, skilaði inn tillögu að uppbyggingu rannsóknastöðvar á Raufarhöfn. Henni er ætlað að efla vísindastarf á Melrakkasléttu, m.a. með því að laða að bæði innlenda og erlenda vísindamenn. Hugmyndinni var vel tekið, enda bjóða bæði innviðir á Raufarhöfn og náttúrufar Melrakkasléttu upp á mikla möguleika í rannsóknum á vistkerfi norðurslóða og áhrifum loftslagsbreytinga.

Í framhaldinu var verkefnið skilgreint og sótt um styrk í Vaxtarsamning Norðausturlands (VAXNA). Styrkur fékkst frá VAXNA og úr Eignarhaldsfélagi Brunabótafélags Íslands (EBÍ) en að auki lagði Byggðastofnun fjármagn í verkefnið. Þá fengust peningar af fjárlögum ársins 2014 í verkefnið.

Rannsóknastöðin Rif hefur þannig þríþætt hlutverk og markmið:

  • Að efla og auka náttúrurannsóknir á Melrakkasléttu, m.a. með hliðsjón af skuldbindingum Íslands í norðurslóðasamstarfi.
  • Að safna saman og miðla upplýsingum um náttúrufar á svæðinu til almennings, stjórnvalda og alþjóðasamfélagsins.
  • Að styðja nærsamfélagið með því að taka þátt í samfélaginu, m.a. með fræðslu auk stuðnings við náttúrutengda ferðamennsku.

Hægt er að lesa nánar um aðstöðuna sem Rif býður upp á, samstarfsaðila og tengiliði hér hægra megin á síðunni.