Tvö nútíma sprungukerfi liggja norður Melrakkasléttu. Þau eru á norðurgosbeltinu og tengjast megineldstöðvum sem eru sunnar á gosbeltinu. Um miðbik Melrakkasléttu er sprungukerfi sem tengist Öskjukerfinu. Á því er meðal annars Blikalónsdalur, um 20 km langur sigdalur myndaður af misgengjum, sem nær frá ströndum Melrakkasléttu og inn til landsins. Gossprungan sjálf er um 70-80 km löng og nær langt suður á Mývatnsöræfi. Vestar er sprungukerfi sem tengist sennilega Fremri-Námum. Þar er nyrstur Rauðinúpur, um 70 m hár en hann er eldstöð frá ísöld. Í Rauðanúpi er stór gígskál en rauðar bergmyndanir einkenna Núpinn.
Vatn hripar auðveldlega niður í ungan berggrunn Vestur-Sléttu. Þær ár sem finnast á svæðinu og í næsta nágrenni eru allar lindár og eru upptök þeirra oftast vatnsmiklar lindir tengdar sprungukerfum. Austan Blikalónsdals á Austur-Sléttu er aftur á móti stutt niður á þétt berg sem vatn kemst ekki mjög auðveldlega í gegnum. Þar er því meira um vötn og tjarnir á yfirborði og afrennsli af svæðinu að mestu á yfirborði í formi vatnsmikilla lindáa.