Umhverfið

Melrakkaslétta liggur norður undir heimskautsbaug og er nyrsti hluti Íslands. Segja má að hún sé það landsvæði Íslands sem einna helst beri einkenni norðurheimskautssvæða (norðurslóða) hvað náttúru og ásýnd varðar.

Sérstaða Melrakkasléttu liggur í norðlægri legu svæðisins en frá nyrstu annnesjum að heimskautsbaug eru aðeins þrír kílómetrar. Flatlendi einkennir landslag á Melrakkasléttu sem liggur fyrir opnu hafi og er Sléttan afar berskjölduð fyrir köldum norðlægum hafáttum. Þoka er algeng við ströndina og raki samhliða því. Það eru aðeins Leirhafnarfjöll sem rísa upp af Sléttunni en það eru móbergshryggir sem teygja sig norður eftir henni að vestanverðu.

Norðurströnd Melrakkasléttu einkennist af þangríkum, aflíðandi malarfjörum, vötnum, sjávarlónum og sjávarfitjum. Inn af ströndinni tekur við mólendi með lágvöxnum mólendisgróðri. Á Vestur-Sléttu hripar vatn auðveldlega niður í berggrunninn og þar er lítið um yfirborðsvatn inn til landsins. Á Austur-Sléttu er hinsvegar mikið votlendissvæði á þéttum berggrunni sem nær allnokkuð inn til landsins og skiptast þar á vötn, tjarnir, ár, mýrlendi og mólendi.