Votlendi og vatnafar

Brattar grjótfjörur einkenna Sléttuna að vestan, fyrir utan fjörur norðan Leirhafnar sem eru malarfjörur. Á norðurströnd Melrakkasléttu, frá Núpskötlu og austur fyrir Raufarhöfn eru hinsvegar þangríkar aflíðandi malarfjörur einkennandi og víða eru sjávarlón og vötn. Hvarvetna í víkum og vogum er mikið af þara og er dýralíf þangfjara almennt bæði afar auðugt og fjölbreytt.

Sjávarfitjar finnast á Melrakkasléttu en þar finnst samfelldur háplöntugróður í efsta hluta fjörunnar. Grös eða starir eru þar uppistaðan og jarðvegurinn leðjublandinn. Sjávarfitjar og fitjatjarnir myndast eingöngu þar sem er nógu skýlt, t.d. innst í vogum og fjörðum, en þetta eru merk náttúrufyrirbæri sem þarfnast ítarlegri rannsókna. Fitjar og fitjatjarnir eru mjög fýsilegar til rannsókna þar sem mikill fallandi umhverfisþátta veldur því að fremur auðvelt er að kanna áhrif slíkra þátta, bæði eðlisþátta og lífrænna þátta, á lífríkið.

Sjávarlón eru algeng á norðanverðri Melrakkasléttu en vatnsmassi slíkra lóna er aðgreindur frá sjó af einhvers konar þrengslum sem hefta straumskipti. Lónin eru samt sem áður undir greinilegum áhrifum sjávar.

Stöðuvötn eru fjölmörg á Austur-Sléttu en þau stærstu eru Arnarvatn, Æðarvötn, Hvannabrekkuvatn, Raufarhafnarvötn, Ólafsvatn og Rifshæðavötn. Nokkur stöðuvötn eru einnig á Vestur-Sléttu.

Version 2
Horft yfir Austur-Sléttu frá Fjallgarðinum – Mynd: Jónína S. Þorláksdóttir

Til baka