Dýralíf

Spendýr

Refurinn (Vulpes lagopus), stundum nefndur heimskautarefur (e. Arctic Fox), finnst að sjálfsögðu á Sléttunni sem ber hið skemmtilega nafn hans melrakki. Fjölbreytt fæðuframboð á norðanverðri Melrakkasléttu skapar góð lífsskilyrði fyrir ref og einnig mink (Neovison vison) en sá síðarnefndi kom fyrst á svæðið upp úr 1960. Ekki liggja fyrir sérstakar upplýsingar um fæðuval refa á Melrakkasléttu en gera má ráð fyrir að gott aðgengi að sjávarsíðunni auðveldi refnum fæðuöflun að vetrarlagi sem getur annars verið nokkuð stopul. Þar vega líklega þyngst sjórekin dýr eins og fiskar, selir og svartfuglar, sem og aðrir fuglar sem nýta sér lífríkar strendur Melrakkasléttu að vetrarlagi. Inn til landsins eru víðáttumikil heiðalönd með lyngmóum, sem jafnframt eru kjörlendi fjallrjúpu (Lagopus muta). Nóg fæðuframboð er yfir sumartímann og á haustin bætast við ber, hagamýs og þangflugulirfur á matseðilinn. Bæði refur og minkur eru veiddir á Melrakkasléttu til að vernda æðarvarp og annað fuglalíf.

Landselur (Phoca vitulina) kæpir við norðurströndina en með vogskorinni sjávarströndinni eru víða sjávarlón og ákjósanleg skilyrði fyrir selalátur. Áður fyrr voru kóparnir veiddir og af því hlaust talsverð búbót. Vöðuselur (Pagophylus groenlandicus) sást af og til og var á árum áður einnig veiddur þegar nokkuð var af honum. Á síðunni selalatur.ni.is má finna upplýsingar úr talningum á bæði landsels- og útselslátrum við strendur Íslands, þ.m.t. á Melrakkasléttu.

Fuglalíf

Fuglalíf á Melrakkasléttu er fjölbreytt og endurspeglar fjölbreytni votlendisgerða, lífríkar fjörur, kalt veðurfar sem setur svip sinn á gróðurfar og síðast en ekki síst staðsetningu. Vitað er til að a.m.k. 53 fuglategundir hafa orpið á svæðinu, þar af 47 að staðaldri. Að minnsta kosti ein tegund hefur horfið af svæðinu sem varpfugl á síðustu áratugum, en það er flórgoði (Podiceps auritus). Á sama tíma hafa aðrar tegundir numið þar land, t.d. brandönd (Tadorna tadorna), jaðrakan (Limosa limosa) og hettumáfur (Chroicocephalus ridibundus).

Fuglalíf er fjölbreyttast á strandsvæðum Sléttunnar, þar sem sjó-, vatna- og mófuglar eru alls ráðandi. Einkennisfuglar Sléttu eru m.a. rjúpa og sendlingur (Calidris maritima) en óvíða á landinu finnast þeir í meiri þéttleika á varptíma. Á Rauðanúpi er að finna einu svartfuglabyggð svæðisins og jafnframt aðra af tveimur súlubyggðum á Norðurlandi. Alla aðra hefðbundna bjargfugla er að finna þar, s.s. fýl (Fulmarus glacialis), ritu (Rissa tridactyla), langvíu (Uria aalge), stuttnefju (Uria lomvia) og álku (Alca torda).

Staðsetning Sléttunnar og lífríkar fjörur eru afar mikilvægar fyrir umferðarfugla á leið til varpstöðva á Grænlandi og norður Kanada. Fjörurnar nýta fuglarnir til þess að byggja upp orkuforða og hvíla sig á leið til hinna hánorrænu varpsvæða. Þær tegundir sem fara þar mest um eru sandlóur (Charadrius hiaticula), rauðbrystingar (Calidris canutus), sanderlur (C. alba), sendlingar (C. maritima), lóuþrælar (C. alpina) og tildrur (Arenaria interpres). Óhætt er að fullyrða að fjörur Melrakkasléttu séu þýðingarmesta svæðið fyrir vaðfugla að vori á austan- og norðanverðu landinu.

Fuglalíf að vetri er fremur fábreytt og var til skamms tíma lítið þekkt. Nýlegar vetrarfuglatalningar, sem hafa nú náð yfir alla strandlengjuna umhverfis Sléttu, benda til að þarna sé að finna nokkrar tegundir í umtalsverðu magni, s.s. æðarfugl (Somateria mollissima), hávellu (Clangula hyemalis), stokkönd (Anas platyrhynchos) og toppönd (Mergus serrator).

Til baka