Fálkarannsóknir

Rannsóknir á lífsháttum fálka og hvaða áhrif afrán hans hefur á stofnstærð rjúpu hafa verið í gangi síðan 1981 og eru fálkar taldir á Norðausturlandi á hverju ári. Stærð rannsóknasvæðisins er liðlega 5000 ferkílómetrar og á þessu svæði eru þekkt um 80 fálkaóðul. Fálkarannsóknasvæðið nær meðal annars yfir Melrakkasléttu en slíkar fálkarannsóknir eru unnar á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Talningin er gerð þannig óðulin eru heimsótt og það skráð hvort þau séu í ábúð eða ekki. Þau óðul þar sem fálkarnir reyna varp eru heimsótt aftur í tvígang og þá til að telja ungana og merkja þá. Eins er fæðuleifum safnað úr hreiðrum eftir að ungarnir eru flognir. Jafnframt þessu þá eru rjúpur taldar á rannsóknasvæðinu. Þetta hefur verið gert á 6 reitum frá 1981 til að fá stofnvísitölu fyrir rjúpuna. Út frá þessum gögnum má ráða í það hvernig stofnstærð og viðkoma fálka breytist í tengslum við breytingar á stofnstærð rjúpu. Einnig má sjá hvernig neyslumunstur fálkanna breytist í takt við breytingar á stofnstærð rjúpu.

Þessar rannsóknir hafa sýnt að stofnstærð fálka og rjúpu eru nátengdar og stærð fálkastofnsins fylgir stærð rjúpnastofnsins. Þó er ákveðin töf þar á þar sem fjöldi fálka er í hámarki um þremur árum á eftir hámarki í stofnstærð rjúpu. Viðkoma fálka er aftur á móti mjög háð tíðarfari á vorin en fálkar byrja undirbúning fyrir varp strax í mars og eru viðkvæmir fyrir slæmum veðrum á þessum tíma.

Rannsóknir á samsetningu fæðu fálka sýna að rjúpan er aðalfæðan í öllum árum. Fálkinn er sérhæfður afræningi á rjúpu og mjög líklega einn af áhrifavöldum í stofnsveiflu rjúpunnar.

Ólafur K. Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.