Íslenska rjúpan er vinsæl veiðibráð skotveiðimanna en eitt af því sem einkennir rjúpnastofninn eru miklar sveiflur í fjölda fugla, stofninn rís og hnígur og að jafnaði hafa liðið um 10 ár á milli hámarka. Rjúpnastofninn hefur verið vaktaður um áratugaskeið og megintilgangurinn er að geta lýst ástandi stofnsins sem er ein af forsendum sjálfbærra nytja. Í vöktuninni felast meðal annars talningar á rjúpum og aldursgreiningar.
Rjúpnatalningar fara fram á vori en aldursgreiningar eru gerðar þrisvar á ári, þ.e. á vorin, síðsumars og í byrjun vetrar. Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun rjúpunnar. Með vöktunargögnunum auk gagna sem Umhverfisstofnun safnar um rjúpnaveiði má lýsa stofnbreytingum, reikna stofnstærð, og meta frjósemi og afföll.
Eitt af þeim svæðum þar sem rjúpur eru vaktaðar er Melrakkaslétta. Rjúpnatalningar hófust á Sléttu árið 2003 en gögnum um aldurshlutföll hefur verið safnað þar lengur. Miklar breytingar hafa orðið á fjölda rjúpna á Sléttu frá 2003 og munurinn á mesta og minnsta þéttleika er um 25-faldur! Stofninn var í hámarki vorið 2005, lágmark var vorið 2012 og síðan hefur aðeins fjölgað í stofninum (sjá mynd).
