Melrakkaslétta er láglend, skammt er til sjávar og landið liggur fyrir opnu hafi. Lágur sumarhiti og raki vegna þoku hefur áhrif á gróðurfar og norrænar plöntutegundir einkenna svæðið. Flétturíkir lyngmóar eru algengir, einkum þegar fjær dregur ströndinni.
Á stórum hluta Melrakkasléttu er lítið jarðvegsrof. Á móbergssvæðinu á vestanverðri Sléttu er hins vegar mikið jarðvegsrof í kringum Leirhafnarfjöll. Þar er gróðurþekja mjög rofin og stórt svæði skilgreint með talsverðu eða miklu jarðvegsrofi. Syðst í Leirhafnarfjöllum, sunnan Sléttunnar, er virkt landgræðslusvæði. Í Leirhafnarfjöllum finnast nyrstu birkiskógarleifar landsins.
Nokkrar sjaldgæfar háplöntutegundir og/eða tegundir á válista hafa fundist á þessu svæði.
Nyrstu svæði Íslands, frá Hornströndum í vestri til Langaness í austri, hafa verið skilgreind sem hluti af norðurheimskautssvæðinu (the Arctic) í gróðurfarslegu tilliti, meðal annars vegna loftslags og annarra umhverfisþátta. Svokölluð norðurheimskautslína markar útlínur Melrakkasléttu inn til landsins og tilheyrir því öll Sléttan norðurheimskautssvæðinu m.t.t. gróðurfars.