Hreiðrið
Rif leggur áherslu á að bjóða upp á góða aðstöðu fyrir vísindamenn sem áhuga hafa á að nýta sér þá einstæðu möguleika sem Rifsjörð og Melrakkasléttan öll hefur upp á að bjóða. Rannsóknastöðin hefur því á leigu 66m2 húsnæði á fyrstu hæð Aðalbrautar 16 á Raufarhöfn, en þar er nú einnig rekið gistiheimilið Hreiðrið. Fyrsta hæðin er aðskilin frá öðrum hlutum hússins og að henni liggur sér inngangur. Í kjallara hússins mun rannsóknastöðin hafa aðgang að geymsluplássi og rannsóknaaðstöðu sem hægt verður að nýta í ýmiskonar blautvinnu og annað sem með þarf.
Þjónusta á staðnum
Á Raufarhöfn er til staðar öll helsta þjónusta og meira til eins og:
- Matvöruverslun
- Banki (útibú Landsbankans) og pósthús
- Heilsugæslustöð og apótek
- Sundlaug og íþróttahús
- Hótel, og aðrir gistimöguleikar
- Veitingastaður og kaffihús
- Bensínstöð
- Véla- og trésmiðja
Jörðin Rif
Rannsóknastöðin hefur alfarið til umráða jörðina Rif – nyrstu jörð á Íslandi. Jörðin og náttúra hennar gefa óþrjótandi möguleika á hvers konar vöktun og rannsóknum á sviði náttúruvísinda norður við heimskautsbaug, m.a. á:
- gróðri og fuglalífi
- lífi í vötnum frá hafi til heiða
- ströndinni með öllum sínum líffræðilega margbreytileika
- áhrifum hafs á landmótun
Melrakkasléttan og Raufarhöfn er einnig kjörinn vettvangur til rannsókna á samspili manns og náttúru auk byggðaþróunar.