Samfélag

Saga

Um aldamótin 1900 var búið á allmörgum bújörðum á Melrakkasléttu. Lífsskilyrði voru þá almennt talin fremur góð þó hlunnindi færu minnkandi, en fólk stundaði þá sauðfjárbúskap og var með kýr og hesta. Helstu hlunnindi á Sléttunni voru veiði í sjó og vötnum, rekaviður, dúntekja og eggjatekja. Þegar leið á 20. öldina fækkaði jörðum í heilsársábúð smám saman og í upphafi 21. aldarinnar voru flestar bújarðir á Melrakkasléttu komnar í eyði. Margar þeirra eru þó enn nýttar sem sumardvalarstaður og er húsum vel við haldið af eigendum þeirra sem oft eru afkomendur síðustu ábúenda jarðanna. Einnig eru ýmis hlunnindi enn nýtt eins og rekaviður og dúntekja auk þess sem silungsveiði er stunduð í mörgum stöðuvötnum á Melrakkasléttu.

Raufarhöfn var fyrr á öldum sjálfstæð bújörð og síðar einnig verslunarstaður þar sem einstök hafnaraðstaða frá náttúrunnar hendi kom sér vel fyrir skip og báta. Um 1900 var farið að reka útgerð á Raufarhöfn og byggðist staðurinn meira og minna upp í kringum þá starfsemi vel fram eftir 20. öldinni. Bar þar hæst síldarævintýrið sem stóð frá 1947-1967, en því lauk snögglega þegar síldin brást.

Íbúafjöldi

Þegar best lét bjuggu um 600 manns á Raufarhöfn rétt fyrir 1980 en í dag eru íbúar Raufarhafnar aðeins tæplega 180.

Helstu atvinnuvegir

Helstu atvinnugreinar á svæðinu eru útgerð og þjónusta fyrir íbúa ásamt vaxandi ferðaþjónustu, en æ fleiri sjá tækifæri í að nýta sérstöðu svæðisins til náttúrutengdrar ferðaþjónustu, t.d. fuglaskoðunar. Landfræðileg staðsetning Melrakkasléttu á mörkum heimskautsbaugs er einnig aðdráttarafl og við Raufarhöfn er verið að reisa svokallað Heimskautsgerði, stórt og mikið mannvirki. (mynd?)

Vegna fólksfækkunar hefur verið mikið framboð á auðu húsnæði á Raufarhöfn. Það hafa ferðaþjónustuaðilar nýtt sér og hefur gistirýmum fyrir ferðamenn á Raufarhöfn fjölgað talsvert á allra síðustu árum. Stefnan er að auka nýtingu þeirrar fjárfestingar og byggja upp ferðaþjónustu allt árið um kring.

Norræn náttúra Melrakkasléttu, harðbýlt umhverfi, einangrun og yfirgefin eyðibýli í margskonar mynd eru líkleg til að verða mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn í komandi framtíð. Mikilvægt er að vel verði að verki staðið við uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu svo viðkvæm náttúra svæðisins beri ekki skaða af aukinni umferð ferðamanna.

Til baka