Fyrri rannsóknir

Jarðfræði

Töluverðar jarðfræðirannsóknir hafa verið stundaðar á Melrakkasléttu og nágrenni. Það eru meðal annars rannsóknir á berggrunni Melrakkasléttu og jarðfræðikortlagning á Norðausturlandi en einnig rannsóknir sem gerðar voru á Vestur-Sléttu í kjölfar Kópaskersskjálftans í janúar 1976. Í framhaldinu voru einnig gerðar rannsóknir á setlögum frá jökultíma og kortlagning á ummerkjum ísaldarjökla á Melrakkasléttu. Ýmsar rannsóknir hafa einnig verið gerðar í tengslum við öflun neysluvatns fyrir Kópasker og Raufarhöfn, öflun neysluvatns fyrir fiskeldi, og vegna nýs sorpurðunarstaðar við Kópasker. Einnig fóru fram frumkannanir vegna vegagerðar um Hólaheiði sem er sunnan Melrakkasléttu.

Vatnafar

Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um flest sjávarlónin á Melrakkasléttu en þó var hitastig, selta og botnþörungar rannsökuð í nokkrum sjávarlónum milli 1960 og 1970. Þegar þau voru flokkuð um 1990 var stærð þeirra og dýpt einnig metin auk þess sem selta, gerð botnsets og lífríki var kannað í a.m.k. nokkrum þeirra. Árið 1993 var lífríki skoðað í þremur þeirra sem hluti af verkefninu Yfirlitskönnun á lífríki íslenskra vatn: samræmdur gagnagrunnur (Þóra Hrafnsdóttir 2013).

Nokkur vötn á Melrakkasléttu voru rannsökuð árið 1993 í tengslum við vatnaverkefnið Yfirlitskönnun á lífríki íslenskra vatn: samræmdur gagnagrunnur (Þóra Hrafnsdóttir 2013) sem Náttúrufræðistofa Kópavogs vinnur að í samstarfi við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Hólaskóla í Hjaltadal og Veiðimálastofnun. Þeir dýrahópar sem voru meðal annars skoðaðir eru bleikja, rykmý og krabbadýr.

Fuglarannsóknir

Fuglarannsóknir á Sléttu hafa beinst að fáum lykiltegundum, fremur en fuglalíf svæðisins í heild. Má þar nefna árlega rjúpna- og fálkavöktun á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, misreglulegar talningar á sjófuglum í Rauðanúpi á vegum Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands og árlega vöktun brandandarstofnsins á ungatíma á vegum Náttúrustofu Norðausturlands. Erlendir aðilar, og sjaldnar innlendir til skamms tíma, hafa unnið að stopulum vaðfuglarannsóknum á svæðinu, bæði er tengjast viðkomu fargesta sem og varpi lykiltegunda, þá sér í lagi sendlings og þórshana (Phalaropus fulicarius).

Hin síðari ár hefur Guðmundur Örn Benediktsson, búsettur á Kópaskeri, fylgst mikið með fuglalífi á svæðinu í sínum frítíma. Hefur hann einkum lagt áherslu á álestur litmerktra vaðfugla en einnig hefur hann talið fjölda sumra tegunda með reglubundnum hætti. Einnig hefur hann skráð niður farfuglakomur á vorin við Öxarfjörð og Melrakkasléttu, frá árinu 2001. Slíkar upplýsingar geta m.a. reynst verðmætar við mat á áhrifum loftslagsbreytinga á norræn vistkerfi.

Til baka