Undanfarin ár hafa Sameinuðu þjóðirnar haldið upp á dag hafsins þann 8. júní. Á þeim degi er ekki úr vegi að huga að þeim ógnum sem að hafinu steðja og þeim staðbundnu aðgerðum sem við öll getum gripið til til að vernda vistkerfi í og við hafið.
Plastmengun er eitt þessara vandamála og á Melrakkasléttu fer plastrusl í fjörunni ekki framhjá íbúum svæðisins. Í vetur sem leið, 2019-2020, var veður þannig að gríðarlega mikið magn af plastrusli barst af sjó langt upp á land á allri Sléttunni. Plastið setur nú mikinn svip á fjörurnar og of mikið er af því til að raunhæft væri fyrir íbúa eina að ætla að hreinsa svæðið.
Rannsóknastöðin Rif hefur því stofnað til samstarfs við sveitarfélagið Norðurþing og sjálfboðaliðasamtökin Veraldarvini, ásamt mögulega fleiri aðilum, um að skipuleggja strandhreinsun á Melrakkasléttu í sumar, á svæðinu frá Raufarhöfn og norður á Hraunhafnartanga. Samráð hefur verið og verður áfram haft við landeigendur á svæðinu um skipulagningu og framkvæmd hreinsunarinnar, en búast má við hópum sjálfboðaliða á Raufarhöfn til að vinna að þessu verkefni í sumar.
Starfsmenn Rifs munu hafa umsjón með skipulagningu strandhreinsunarinnar – nánari upplýsingar veitir Gísli Briem í síma 856 9545.
Efsta myndin í þessari frétt er af verki á sýningu Guðmundar Arnar Benediktssonar á Kópaskeri 2018, en efnið í sýningunni var fengið úr fjörum á Melrakkasléttu. Sýningunni var ætlað að vekja athygli á plastmengun í hafi.