Himbrimarannsóknir á Sléttu

Dagana 28. maí til 1. júní dvaldist hér hjá okkur ásamt fríðu föruneyti Pétur Halldórsson, meistaranemi í líffræði við Háskóla Íslands. Tilgangur ferðarinnar var að fanga norðlenska himbrima (Gavia immer), en Ísland er eina landið í Evrópu þar sem þessi mikilfenglegi vatnafugl verpir að staðaldri.

Hópurinn var svo heppinn að ná einum fugli. Var hann merktur og mældur auk þess sem blóð- og fjaðrasýnum var safnað. Þá hafa verið festir dægurritar (e. geolocator) á himbrima í verkefninu, en slík tæki mæla birtutíma og gefa þannig upp staðsetningu. Fuglunum þarf að ná aftur til að hægt sé að nálgast upplýsingarnar sem tækið geymir svo við bíðum spennt eftir að fá frekari fréttir af ferðum íslenskra himbrima.

Einnig mætti á svæðið þriggja manna tökulið undir stjórn Jóns Arnar Guðbjartssonar, sviðsstjóra markaðs- og samskiptasviðs HÍ og umsjónarmanns þáttanna Fjársjóður framtíðar. Fylgdu þeir rannsóknahópnum eftir einn dag og náðu frábærum myndum og myndskeiðum af þeim fanga og meðhöndla himbrima. Sjá má nokkrar myndir af þessu ævintýri hér að neðan.

Verkefnið er styrkt af Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar og naut hópurinn aðstoðar Guðmundar Arnar Benediktssonar, fuglaáhugamanns á Kópaskeri, við val á rannsóknarsvæðum.

Viðtal við Jónínu verkefnastjóra

Sjónvarpsstöðin N4 tók á dögunum viðtal við verkefnastjóra Rifs sem birtist í föstudagsþætti stöðvarinnar þann 27. maí.  Ýmislegt fróðlegt kemur fram í viðtalinu en spjallað var m.a. um starfsemi Rifs, hugmyndina á bak við verkefnið, dagskránna framundan og framtíðarhorfur. Viðtalið má finna hér.

Slide1

Bætist enn í verkefnaflóruna

Hjá okkur á Rifi hefur dvalið síðan á föstudaginn hún Farina Sooth, doktorsnemi við Albert-Ludwigs háskólann í Freiburg, Þýskalandi. Mun hún dvelja í stöðinni til 1. júní n.k. í tengslum við rannsóknir sínar. Snúa þær að því að kanna hvaða áhrif rjúpnaveiði, og sú truflun sem af slíkri umferð og athöfnum manna verður, hefur á hegðunarmynstur og lífsskilyrði rjúpunnar (Lagopus muta).

Farina hefur ferðast um Ísland síðan 4. apríl s.l. við öflun gagna og ber hún saman mismunandi svæði þar sem ólíkt veiðiálag ríkir. Þau svæði sem hún tekur fyrir í rannsókn sinni eru Reykjavík og nágrenni, Skaftafell, Ásbyrgi og nágrenni og svo Melrakkaslétta og Þistilfjörður.

Við bjóðum Farinu hjartanlega velkomna á svæðið og óskum henni góðs gengis með þetta spennandi verkefni.

Foto am Tronkberg See

Styrkur frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra

Á miðvikudaginn, 18. maí, var formlega úthlutað úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra á veglegri athöfn á Breiðumýri í Reykjadal. Þar var margt um manninn enda stór hópur verðugra umsækjenda að taka við styrk til að vinna að spennandi verkefnum.

Það gleður okkur að segja frá því að Rannsóknastöðin Rif fékk í sinn hlut veglegan styrk sem við hlökkum til að nýta til áframhaldandi uppbyggingar stöðvarinnar og starfsemi hennar.

13262342_10208547213334048_2138264057_o
Jónína verkefnastjóri tók við viðurkenningarskjali vegna styrkveitingarinnar fyrir hönd Rifs. Með á myndinni er svo Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir, en hún tók við styrk til að stuðla að umferð skemmtiferðaskipa á Raufarhöfn fyrir hönd verkefnisins „Raufarhöfn og framtíðin“. 

Allt að gerast á Raufarhöfn

Nú er vorið farið að láta á sér kræla hér á Raufarhöfn og því fylgir aukið líf, ekki bara hvað varðar fugla og gróður, heldur einnig mannlíf. Til okkar hér í rannsóknastöðina er til að mynda mættur hann Matthias Kokorsch, doktorsnemi í mannvistarlandfræði við Háskóla Íslands. Matthias mun dvelja hjá okkur samfleytt í fimm vikur við gagnasöfnun í formi viðtala og vettvangsathugana. Fyrstu dagana mun hann þó einbeita sér að því að grafast fyrir um sögu staðarins.

Snýst verkefni hans í stuttu máli um hvaða áhrif breytingar í sjávarútvegi hafa haft á byggðir sem háðar eru slíkri atvinnustarfsemi og hvernig slík byggðalög aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Þá er meiningin að velta fyrir sér þeim leiðum sem mögulega eru færar til að styrkja slíkar byggðir og sporna við fólksfækkun. Því má segja að þetta sé afar áhugavert og viðeigandi verkefni hér á Raufarhöfn.  Fyrr á árinu dvaldi Matthias í fimm vikur á Skagaströnd við gagnasöfnun og mun hann bera þessa tvo staði saman, en ef horft er á byggðaþróun útfrá sögulegu samhengi er margt líkt með þessum stöðum.

Við bjóðum Matthias hjartanlega velkominn í bæinn og hlökkum til að sjá hvernig verkefnið mun þróast!

IMG_2441

Gleðilegt nýtt starfsár!

Þó það sé enn ansi jólalegt um að litast er þó daginn tekið að lengja hér á Raufarhöfn sem og annars staðar. Það er því ekki seinna vænna en að starfsmaður mæti í hús, en það eru ansi mörg spennandi verkefni framundan á árinu sem þarf að fara að vinna að. Því er gaman að segja frá því að búið er að tryggja stöðu verkefnastjóra Rifs að minnsta kosti út árið 2016! Til að fagna þeim áfanga og hækkandi sól nýtti því undirrituð hádegishléð sitt í að smella nokkrum fallegum myndum af bænum og höfninni í vetrarbúningi.

Bestu kveðjur, Jónína Sigríður