Hvítabirnir á Íslandi og afkoma þeirra á tímum loftslagsbreytinga

„Lögreglunni á Norðurlandi eystra barst tilkynning um að sést hefði til hvítabjarnar á Melrakkasléttu síðdegis í dag. Frá þessu er greint á Facebook-síðu embættisins. Ekki hefur tekist að staðfesta að um hvítabjörn sé að ræða. Samkvæmt tilkynningunni sást til bjarndýrsins nyrst á Melrakkasléttu suður af Hraunhafnarvatni.”
hvítabirnir
Hvítabjörn með tvo húna. Mynd: https://news.nationalgeographic.com/2018/02/polar-bears-starve-melting-sea-ice-global-warming-study-beaufort-sea-environment/

Svona hófst frétt sem birtist á vefsíðu Ríkisútvarpsins í gær, mánudaginn 9. júlí. Í ljós kom að menn við veiðar á svæðinu töldu sig hafa séð hvítabjörn og var Landhelgisgæslan kölluð til ásamt lögreglunni til að fínkemba Sléttu í leit að birninum. Fólk dreif að um kvöldið og nóttina frá Raufarhöfn og Kópaskeri og alla leið frá Húsavík, en allt kom fyrir ekki – enginn björn hefur enn fundist þegar þetta er skrifað um hádegi 10. júlí. Þó á að fljúga aftur yfir í dag og leita betur – kannski vissara að leyfa enga óvissu í þessu máli þó íbúar Raufarhafnar láti þetta ekki slá sig út af laginu.

Starfsmaður rannsóknastöðvarinnar tók fréttunum af hvítabirninum líka með fyrirvara, enda ekki svo langt síðan mikill viðbúnaður var í Jökulsárgljúfrum vegna sauðkindar sem einhverjum ferðamanni fannst líkjast hvítabirni allverulega. Hins vegar er ekki heldur langt síðan hvítabjörn gekk í raun á land hér nálægt okkur, nánar tiltekið í Þistilfirði árið 2010, en tveir birnir tóku land á Íslandi árið 2008 og einn 2011. Allir fjórir voru felldir við komuna til landsins.

Hvítabirnir, Ursus maritimus, eiga heimkynni sín m.a. á Grænlandi og berast þaðan til Íslands með hafís stöku sinnum. Hér á árum áður voru komur hvítabjarna verulega tíðari en nú er og þeir koma frekar þegar hart er í ári. Frostaveturinn mikla 1918 er talið að 27 hvítabirnir hafi borist til Íslands en allt að 63 hafísveturinn mikla 1880-1881. Þá lá hafísinn vikum saman með Íslandi norðan- og vestanverðu.

Líklega þurfa heimamenn og ferðalangar á Melrakkasléttu að fara til Húsavíkur vilji þeir sjá hvítabjörn: Þar er einn uppstoppaður á Náttúrugripasafni Þingeyinga. Sá var felldur í Grímsey árið 1969.

Hvítabirnir og loftslagsbreytingar

4102-21982
Hvítabjörn á ísnum. Mynd: http://greenarea.me/en/194925/climate-change-affecting-polar-bears/

Hvítabjörninn er á okkar tímum táknmynd loftslagsbreytinga og neikvæðra afleiðinga þeirra á lífríki norðurslóða. Hvítabirnir lifa á selveiðum af hafísnum við norðurslóðir, en eins og flestir vita hefur mjög dregið úr magni hafíss á undanförnum árum og áratugum.

Átakanlegar myndir berast okkur af hungruðum hvítabjörnum, en fátt myndefni þó jafn átakanlegt og þetta myndband hérna sem birtist m.a. á vefsíðu National Geographic. Að eigin sögn grétu ljósmyndararnir og kvikmyndagerðarmennirnir þegar þeir tóku myndskeiðið af birninum. Þó er ómögulegt að vita hvort þessi tiltekni hvítabjörn hafi liðið fæðuskort vegna minnkandi hafíss – dýr svelta jú stundum úti í náttúrunni og hafa alltaf gert.

Nýjar rannsóknir sýna að afkomu hvítabjarna er verulega ógnað af völdum loftslagsbreytinga og líkur eru á því að árið 2050 verði hvítabjarnarstofninn ekki nema þriðjungur þess sem hann er í dag.

Líklegt er að lífríki norðurslóða taki verulegum breytingum samhliða breyttu loftslagi á næstu áratugum takist okkur ekki að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka neyslu og sóun í samfélaginu. Hvítabjörninn er langt því frá eina tegundin sem mun þurfa að berjast harðar fyrir afkomu sinni eða finna ný heimkynni en hann minnir okkur samt á þær stóru áskoranir sem við stöndum frammi fyrir.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s