Coffee Science 2023. Þriðja lota

Rannsóknastöðin Rif bíður upp á kaffispjallröð sumarið 2023. Þriðja lota ber heitið: Fléttufunga Melrakkasléttu

Fléttur eru áberandi í íslenskum vistkerfum. Fléttur eru dæmi um velheppnaðan lífsmáta askveppa sem lifa af með hagnýtingu s.k. ljósbýlings sem oftast er grænþörungur þó sumar fléttur innihaldi blábakteríur sem ljóstillífandi hluta. Víðáttumiklir fjalldrapamóar Melrakkasléttu hýsa fjölmargar fléttutegundir, áberandi eru fjallagrös og ýmsir krókar. Helst er að finna engjaskófir á þúfukollum á votlendissvæðum Melrakkasléttu. Mest er þó fjölbreytni fléttufungunnar á klettabeltum og staksteinum svæðisins, þar eru s.k. hrúðurfléttur áberandi og geta lífgað upp á gráleitt basaltið með skærum litum sínum einkum undir setstöðum fugla. Í fyrirlestrinum verður sagt frá fléttum og lífsmáta þeirra en sérstök áhersla lögð á þær tegundir sem eru áberandi á Melrakkasléttu.

Starri Heiðmarsson lauk doktorsprófi í fléttufræðum við Uppsalaháskóla árið 2000. Að námi loknu starfaði hann m.a. við rannsóknir á fléttum við Náttúrufræðistofnun Íslands til ársins 2022. Undanfarið ár hefur hann starfað sem forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Starri hefur einnig sinnt kennslu við Háskólann á Akureyri og Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hann er gestaprófessor.

Leave a comment