Hjá okkur á Rifi hefur dvalið síðan á föstudaginn hún Farina Sooth, doktorsnemi við Albert-Ludwigs háskólann í Freiburg, Þýskalandi. Mun hún dvelja í stöðinni til 1. júní n.k. í tengslum við rannsóknir sínar. Snúa þær að því að kanna hvaða áhrif rjúpnaveiði, og sú truflun sem af slíkri umferð og athöfnum manna verður, hefur á hegðunarmynstur og lífsskilyrði rjúpunnar (Lagopus muta).
Farina hefur ferðast um Ísland síðan 4. apríl s.l. við öflun gagna og ber hún saman mismunandi svæði þar sem ólíkt veiðiálag ríkir. Þau svæði sem hún tekur fyrir í rannsókn sinni eru Reykjavík og nágrenni, Skaftafell, Ásbyrgi og nágrenni og svo Melrakkaslétta og Þistilfjörður.
Við bjóðum Farinu hjartanlega velkomna á svæðið og óskum henni góðs gengis með þetta spennandi verkefni.