COFFEE SCIENCE 2023: Fimmti fundur

Rif Field Station er ánægður með að tilkynna fimmti fund Coffee Science 2023 þann 27 september frá 17:00 til 18:00 á Félaginu Bar Raufarhöfn.

Vöktun og rannsóknir á bjargfuglum á Norðausturlandi: stofnþróun, vetrarstöðvar, fæðuöflunarsvæði og mengun.

Ísland hýsir stóra stofna sjófugla sem sumir hverjir verpa í björgum fram, allt í kringum landið, og kallaðir eru bjargfuglar. Um er að ræða fimm tegundir sjófugla: fýl, ritu, langvíu, stuttnefju og álku. Í upphafi og í kringum miðjan níunda áratugar síðustu aldar voru íslensku fuglabjörgin kortlögð í fyrsta skipti með heildstæðum hætti og stofnstærðir flestra bjargfugla metnar. Upp úr þessu hófst skipulögð vöktun á bjargfuglum á tveimur stöðum á landinu, Krýsuvíkurbergi á Reykjanesskaga og Skoruvíkurbjargi á Langanesi. Voru þessar rannsóknir unnar að frumkvæði prófessors Arnþórs Garðarssonar sem þróaði samhliða þá aðferðafræði sem enn er notast við í dag við vöktun þessara stofna hér á landi.

Árið 2006 tók Náttúrustofa Norðausturlands við keflinu í Skoruvíkurbjargi og hefur sinnt árlegri vöktun bjargfugla þar allar götur síðan. Náttúrustofan hefur þróað aðferðafræði bjargfuglavöktunar enn frekar, auk þess sem stofan hefur haft umsjón með vöktun bjargfuglastofna á landsvísu frá árinu 2017. Samhliða hefur Náttúrustofan ráðist í nánari rannsóknir á vistfræði þessara tegunda, sem hafa það að markmiði útskýra stofnbreytingar sem vöktun þeirra sýnir fram á. Fela þessar rannsóknir einkum í sér kortlagningu á svæðanotkun tegundanna, bæði utan varptíma og yfir varptímann.

Í kaffispjallinu mun Þorkell Lindberg Þórarinsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands, fara yfir vöktun og rannsóknir Náttúrustofunnar á bjargfuglum með áherslu á norðausturhorn landsins, frá Grímsey og austur á Langanes. Kynntar verða og boðið upp á spjall um helstu niðurstöður rannsóknanna, s.s. þróun bjargfuglastofna á svæðinu, varpafkoma undanfarin ár, vetrarstöðvar,  mikilvæg fæðuöflunarsvæði á varptíma og kvikasilfursmengun.

Þorkell Lindberg Þórarinsson er fæddur og uppalinn Húsvíkingur. Hann lauk stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum á Húsavík árið 1994 og BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1999. Árið 2002 lauk hann meistaraprófi frá sama skóla og fjallaði lokaritgerð hans um svæðanotkun flórgoða. Þorkell hefur víðtæka þekkingu á náttúrufari Norðausturlands en áður en hann hóf störf sem forstöðumaður Náttúrustofunnar árið 2003 hafði hann starfað við rannsóknir í Mývatnssveit frá árinu 1997, auk þess sem hann tók þátt í kortlagningu vetrarfugla á svæðinu í störfum sínum hjá Líffræðistofnun Háskóla Íslands.

Leave a comment