Fyrirlestur um vöktun þurrlendis á norðurhjara og hlutverk Rifs

Hrafnaþing er röð opinna fræðsluerinda á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands.

2. nóvember síðastliðinn fluttu Starri Heiðmarsson (sviðsstjóri grasafræði við Náttúrufræðistofnun Íslands og ritari stjórnar Rannsóknastöðvarinnar Rifs) og Jónína framkvæmdastjóri Rifs erindið „Vöktun þurrlendis á norðurhjara og uppbygging rannsóknastöðvarinnar Rifs á Melrakkasléttu“. Hlusta má á fyrirlesturinn í heild sinni hér.

Í fyrirlestrinum var sagt frá áætlunum um vöktun þurrlendis með sérstakri áherslu á Ísland, en grundvöllur íslenskrar vöktunar á norðurhjara styrktist umtalsvert þegar rannsóknastöðin Rif var sett á fót.

Yfirstandandi loftslagsbreytingar hafa og munu hafa mikil áhrif á norðurhjara. Sum áhrifin eru augljós eins og hopandi jöklar og minnkandi sífreri. Þekking okkar og vöktun á lífríki norðurhjara er hins vegar brotakennd og til að draga saman þekkingu og samræma vöktun á svæðinu hefur CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna – lífríkisvernd á norðurslóðum) komið á fót alþjóðlegu verkefni, CBMP (Circumpolar Biodiversity Monitoring Program – Vöktun lífríkis á norðurhjara).

Melrakkaslétta er það landsvæði Íslands sem hvað helst ber einkenni norðurheimskautssvæða (norðurslóða) og er norðurhluti hennar skilgreindur sem lágarktískur. Með aðstöðunni sem stöðin býður upp á eykst aðgengi að svæðinu og þar með möguleikarnir á framtíðarrannsóknum og vöktun á lífríki norðlægra vistkerfa á Íslandi. Þá er Rif aðili að INTERACT (International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Arctic) sem er öflugt samstarfsnet rannsóknastöðva á norðurslóðum. Rif hefur nú verið tilnefnd af samstarfinu sem ein þeirra stöðva þar sem byggja á upp CBMP vöktunaráætlunina.

Leave a comment