INTERACT

Rannsóknastöðin Rif hefur frá árinu 2014 verið aðili að INTERACT samstarfinu. INTERACT stendur á ensku fyrir International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Arctic, sem mætti útleggja á íslensku sem alþjóðlegt tengslanet um rannsóknir og vöktun á vistkerfi norðurslóða.

Hvað er INTERACT og hvert er markmið samstarfsins?

INTERACT samstarfið var stofnað árið 2010 sem net 32 rannsóknastöðva sem staðsettar eru á arktískum og norðlægum slóðum allt í kringum norðurheimskautið – í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Netið hefur stækkað gríðarlega síðan, og árið 2019 eru meðlimirnir orðnir 86 talsins.

Aðal markmið samstarfsins er að skapa aukna möguleika á að greina, skilja, spá fyrir og bregðast við hinum fjölbreyttu og fjölþættu umhverfisbreytingum og breyttri landnýtingu sem eru að eiga sér stað í hinum umfangsmiklu vistkerfum norðurslóða.

INTERACT stöðvarnar hýsa árlega mörg þúsund vísindamenn alls staðar að úr heiminum sem stunda rannsóknir í fjölbreyttum fögum. INTERACT vinnur einnig með mörgum öðrum alþjóðlegum samstarfsnetum á sviði rannsókna og vöktunar.

Á vefsíðu INTERACT má kynna sér ýmislegt um grundvöll, markmið og verkefni undir samstarfsnetinu, sem og rannsóknastöðvarnar sem eru aðilar að því. Rannsóknastöðin Rif á þar sína sér síðu.

Hvað gerir Rif innan INTERACT?

Undir INTERACT netinu eru níu svokallaðir vinnupakkar eða vinnuhópar sem rannsóknastöðvarnar eiga aðild að. Þar er unnið að ýmsum sameiginlegum verkefnum undir regnhlíf samstarfsnetsins, s.s. eflingu fræðslu, bættri meðhöndlun gagna og aukinni notkun nýrrar tækni við vöktun og rannsóknir. Hér má kynna sér alla vinnuhópana og verkefni þeirra. Rif er aðili að þremur vinnuhópum, en þeir eru:

  • Vinnuhópur 3 – Vettvangur stöðvarstjóra (e. Station Managers’ Forum)
  • Vinnuhópur 5 – Fjölþjóðlegur aðgangur (e. Transnational Access)
  • Vinnuhópur 7 – Efling og samræming vistkerfisvöktunar (e. Improving and Harmonizing Biodiversity Monitoring)

Af þessum þremur er vinnuhópur 7 sá veigamesti í starfi Rifs og innan hans er unnið að ýmsu sem eflir rannsóknastöðina verulega. Hann er líka einn sá mikilvægasti í starfi INTERACT og um hann er fjallað sérstaklega hér á vefsíðu samstarfsnetsins. Á undirsíðum hér má lesa meira um hvern vinnuhóp og störf hans.

Einnig má benda áhugasömum á að kynna sér bókina INTERACT – Stories of Arctic Science hér á vefsíðu Rifs.

Síðan er í vinnslu.